top of page

Um mig

Aldaframboð2016.jpg

Ragnhildur Alda fæddist í Reykjavík 30. júlí 1990.  Hún er gift Einari Friðrikssyni lækni en sonur hennar er Vilhjálmur Andri Jóhannsson. Foreldrar hennar eru Vilhjálmur Egilsson og Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir. Hún er með B.Sc. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið meistaranámi í þjónustustjórnun við viðskiptafræðideild frá sama skóla. Ragnhildur Alda er fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og situr í velferðarráði, ofbeldisvarnarnefnd, aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks og innkauparáði Reykjavíkurborgar. Hún hefur meðal annars verið aðstoðarmaður rannsakenda við Háskóla Íslands, flugfreyja hjá Icelandair, innheimtufulltrúi hjá Tollstjóranum í Reykjavík og förðunarfræðingur í Body Shop. 


Ragnhildur Alda hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn. Hún var varaformaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 2015 - 2017 og sat í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, árin 2017 - 2021. Samhliða náminu var Ragnhildur Alda virk í stúdentapólitík fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta og sat meðal annars í Háskólaráði Háskóla Íslands fyrir hönd Vöku árin 2018 - 2020. Einnig stofnaði Ragnhildur Alda geðfræðslufélagið Hugrúnu ásamt góðum hópi stúdenta og sat í stjórn félagsins árin 2016 - 2018.  

Um mig: Bio

„Það má segja að ég sé fædd og uppalin í þessum bransa með foreldri á þingi lengi vel. Lífsstíllinn sem fylgdi stúdentapólitíkinni, Heimdalli og öllu grasrótarstarfinu með námi, vinnu og barni var því bara mjög eðlilegur fyrir mér. Þessi reynsla og tenging við grasrótina og stúdenta veitti mér óneitanlega forskot þegar ég byrjaði í borgarpólitíkinni, ásamt því að hafa sérhæft mig í þjónustustjórnun. Enda er borgin risastór þjónustustofnun og nægt rými þar fyrir framfarir í átt að betri rekstri og þjónustu til íbúa.


Í borgarstjórn hef ég hef meðal annars talað fyrir og beint störfum mínum að bættum vinnubrögðum og gegnsæi innan borgarinnar, að fjölgun hagstæðra lóða til íbúðauppbyggingar, meiri sveigjanleika í opnunartíma leikskóla, innleiðingu snjallra umferðarljósa og gatnamóta, betra samráði við verslunareigendur í miðbænum, málefnum heimilislausra og hagsmunum hundaeigenda, betri þrifum á borgargötum, eflingu sálfræðiþjónustu í grunnskólunum ásamt fjölmörgu öðru. Það er af mörgu að taka og ég vonast til að fá áframhaldandi tækifæri til að beita mér í þágu borgarbúa“ 

Um mig: Text
Um mig: Pro Gallery

©2021 by Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Proudly created with Wix.com

bottom of page